Kort af gönguleið, Keldudalur-Helgafell
Kort © 2024 Maps of Iceland

Gönguleið

2. Keldudalur – Helgafell

4 - 5 tímar - Hækkun 549 m.

Í Keldudal er fögur fjallasýn. Hæstu brúnir fjallanna eru flestar í yfir 500 metra hæð og allra hæst er Þverfellið fyrir botni dalsins en brún þess er í 904 metra hæð. Helstu fjöll, fjallahvilftir og þverdalir í Keldudal eru þessi talið að utanverðu frá sjó og síðan áfram fyrir dalbotninn og til sjávar: Helgafell, Strengbergshvilft, Strengbergshorn, sem líka var nefnt Nónfjall, Gjálpardalur, Hundshorn, sem teygist nokkuð frá meginfjallgarðinum í átt til sjávar, Skálarárhvilft, Saurhorn, Álftaskál, Álftaskálarfjall en þar ber hæst Geldingadalshorn, Geldingadalur – og er þá komið í dalbotn.

Fyrir botni dalsins er Þverfell en norðan og austan við það er Lambaskál. Upp úr henni má ganga yfir í Lambadal sem er þverdalur frá Haukadal. Næst kemur Seljafjall, þá Arnarnúpshvilft, síðan Skóghlíðarfjall, þá Skarðanúpur og loks Arnarnúpur sem ýmsir telja tignarlegasta fjallið í öllum Dýrafirði. Skemmtileg gönguleið er á Arnarnúp úr Eyrardal, sjá gönguleið nr. 3, Sveinseyri-Arnarnúpur.

Lagt er upp frá Hraunskirkju en best er að ganga örlítið inn á við í vestur og sveigja svo til hægri og skáskera hlíðina upp á brún. Göngufólk hefur þó misjafnan hátt þar á. Útsýni af Helgafelli er fallegt og í skíru veðri sést yfir nyrðri hluta Dýrafjarðar og vestasta hluta Vestfirsku alpanna. Uppi á Helgafelli er Altarið, gömul mosavaxin steinhleðsla sem sagt er að Guðmundur góði hafi látið hlaða við komu sína í Keldudal. Þangað mátti enginn óþveginn líta. Að norðanverðu eru mikil standbjörg og rétt að fara varlega við brúnina. Sama leið er gengin niður.

Hestur í Keldudal
Myndir og myndband eftir Hauk Sigurðsson

Heimildir og texti að hluta: Kjartan Ólafssson.

Göngu-og-hjólakort--Dýrafjörður
Kort © 2024 Maps of Iceland

Deila: