Kort af gönguleið, Sveinseyri-Arnarnúpur
Kort © 2024 Maps of Iceland

Gönguleið

3. Sveinseyri – Arnarnúpur

3,5-4,5 tímar - Hækkun 558 m


Bílnum er lagt á flötinni við skiltin utan við eyðibýlið Sveinseyri. Gengið er inn í Eyrarhvilftina og botni hvilftarinnar fylgt upp á brún Eyrarfjalls og þaðan áfram á Arnarnúp. Útsýni af Arnarnúpnum er mjög fagurt inn Keldudalinn og um alla hans þverdali. Af fáum stöðum er útsýni yfir Dýrafjörðinn jafn stórbrotið. Sama leið gengin niður.

Hér má sjá gönguleið á Arnarnúp með gps hnitum (Wikiloc).

Fjallið sem skilur að Eyrardal og Haukadal heitir Haukadalsfell en hefur á síðari tímum verið kallað Fell.  Út úr því gengur klettaöxl sem snýr að Eyrardal. Á öxl þessari stendur hár og allgildur steindrangur og ber við himin frá þjóðveginum rétt innan við Sveinseyri en sést líka vel heiman frá bæjarhlaði. Þetta er Eyrarkerlingin en í munnmælum segir að hún og Stapi (sjá leið 1) hafi bæði verið manneskjur og reyndar systkini. Þau heituðust hvort við annað og mæltu svo um bæði tvö að hitt skyldi verða að steini. Reyndar lét systirin þau áhrínsorð fylgja að allir fuglar skyldu þaðan í frá drita á hinn fordæmda bróður og sjást enn merki þess á Stapa undir Biskupsbökkum í Keldudal. Eyrarkerlingin er hins vegar svo brött að engum mun fært að sigra hana. Hún stendur í um það bil 350 metra hæð yfir sjávarmáli.

Loft lævi blandið á Sveinseyri

Skömmu fyrir 1670 var nokkur hluti Sveinseyrar í eigu séra Snorra Jónssonar sem þá var aðstoðarprestur. Árið 1669 varð séra Snorri að svara til saka á Alþingi fyrir að hafa gert ungfrú Ragnhildi Torfadóttur barn en hún hafði þá látist af barnsförum og barn þeirra var þá líka dáið. Bræður Ragnhildar, Páll Torfason, sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, og séra Einar Torfason á Stað á Reykjanesi, sóttu málið og varð að samkomulagi að séra Snorri greiddi þeim bræðrum alls 30 hundruð í bætur, þar á meðal hluta úr Sveinseyri. Annað glæpamál kom upp árið 1679 en þá bjó á Sveinseyri maður að nafni Guðmundur Jónsson. Honum varð það á að selja stjúpson sinn í hendur hollenskra hvalveiðimanna er hér stunduðu veiðar. Kom mál hans til kasta Alþingis og þar var þetta bókað í lögréttu árið 1678:

Um bréfabrotssekt viðvíkjandi landsins passa, hvort segjast skuli upp á þann mann, Guðmund Jónsson á Eyri í Dýrafirði, hver eð flutti Anno 1677 sinn stjúpson, Björn Jónsson, á hollensk hvalaskip til útsiglingar af landinu. Svara lögþingismenn samþykkilega að sýslumönnum beri með dómi í héraði sanngjarnlega að traktera hvað nefndur Guðmundur kunni fyrir sig bera, skuli hann frá bréfabrotssektum fríaður verða, svo, ef óvitund vænist, að hann það þá með eiði staðfast geri.

Ekki sést í Alþingisbókinni hversu gamall stjúpsonurinn, sem sigldi með hollenskum frá Sveinseyri, var en hefði hann verið á barnsaldri má ætla að þess hefði verið getið. Greinilegt er að Guðmundur var aðeins sakaður um brot á ríkjandi banni gegn ferðum manna úr landinu án vegabréfs frá réttum yfirvöldum en ekki fyrir að hafa selt Hollendingum drenginn í hagnaðarskyni.

Gunnhildur Sumarliðadóttir frá Sveinseyri – víðkunnasti draugur Vestfjarða

Kona í faldbúningi eins og Gunnhildur gæti hafa borið á 18. öldinni.

Úr röðum heimafólks á Sveinseyri, bæði fyrr og síðar, var lengi kunnust Gunnhildur Sumarliðadóttir sem hér drukknaði í lendingu 24. ágúst 1793, tæplega fertug að aldri. Sú var trú manna að Gunnhildur gengi aftur og var hún enn talin á kreiki 200 árum eftir dauða sinn. Án vafa má fullyrða að á fyrri hluta tuttugustu aldar hafi hún enn verið víðkunnasti draugur í Vestur-Ísafjarðarsýslu þó mjög væri þá farið að dofna yfir henni miðað við það sem áður hafði verið.

Gunnhildur var fædd um 1754 en á Bartólómeusmessu (24. ágúst) árið 1793 fóru þrjú systkinanna á Sveinseyri róandi yfir fjörð að sækja hey, Gunnhildur, Bjarni og Jón, bróðir þeirra, sem þá var um 18 ára aldur. Frá atburðum við heimkomu þeirra með heyið frá Læk segir svo í Vestfirskum sögnum:

Urðu þau seint fyrir og var komið svartamyrkur þegar þau komu yfir undir Sveinseyri. Bræðurnir róa miðskipa en Gunnhildur situr ofan á heyinu aftur í bátnum. Var nú töluvert brim í lendingunni og eiga þeir bræður fullt í fangi með að koma bátnum réttum að landi og hugsa ekki um annað meðan þeir eru að lenda. Síðan bera þeir upp heyið og brýna bátnum. En ekki verður Gunnhildur neitt á vegi þeirra, enda áttu þeir ekki von á hjálp frá henni er að landi væri komið. Þegar þeir koma til bæjarins spyr móðir þeirra hvar Gunnhildur sé. Bræðrunum verður bilt við spurninguna en segjast hafa haldið að hún hafi stokkið upp úr bátnum þegar þeir lentu og haldið til húsa. En þar eð enginn heimamanna hafði orðið hennar var halda þeir aftur til sjávar og leita hennar en finna ekki. Morguninn eftir er leit hafin á ný og finnst hún þá í flæðarmálinu í bótinni, kippkorn fyrir utan lendinguna hjá læknum sem rennur úr Eyrarvatni. En bót sú er síðan kölluð Gunnhildarbót. Sáu þeir bræður engin lífsmerki á Gunnhildi og töldu hana því örenda. Þeir hafa það og fyrir satt að hún hafi oltið út af bunkanum í lendingunni og drukknað í sjónum. Þeir láta hana í kassabörur og bera heim í naust sem síðan var kallað Gunnhildarnaust.

Gunnhildarbót heitir nú þar sem lækur úr Eyrarvatni fellur til sjávar. Þar í bótinni mun Gunnhildur hafa drukknað og þar alveg rétt hjá hlýtur Gunnhildarnaust að hafa verið. Í naustinu stóð lík Gunnhildar uppi næstu daga og sagt var að þar hefðu einhverjir talið sig sjá votta fyrir roða í kinnum hinnar sjódauðu heimasætu. Er Bjarni, bróðir Gunnhildar, tók að smíða utan um hana þar í naustinu reis hún að sögn upp af líkbörunum og gerði sig líklega til brottgöngu. Varð Bjarni að standa yfir henni með reidda öxi svo hún lægi kyrr uns Jón bróðir þeirra kom heiman frá bæ með ljós sem hann hafði farið að sækja.

Þann 28. ágúst var Gunnhildur jörðuð frá sóknarkirkjunni í Hrauni. Séra Jón Ásgeirsson ritar þá í kirkjubókina að hún hafi orðið sjódauð. Út í Keldudal var lík hennar flutt sjóleiðis en er verið var að bera kistuna frá sjó heim að Hrauni var hún ýmist þung sem blý eða létt sem fis. Nokkrir heimamenn í Hrauni töldu sig reyndar sjá Gunnhildi koma gangandi heim frá sjónum á undan líkfylgdinni og meðan presturinn var að jarðsyngja hana sást Gunnhildur hlaupa um Hólavöllinn fyrir utan kirkjuna og hafði aldrei sprækari verið.

Sagt var að Gunnhildur hefði verið með barni er hún drukknaði. Óvissa ríkti um faðernið en líklegastur var talinn Jón nokkur, vinnumaður á Sveinseyri. Eftir jarðarför Gunnhildar varð Glóru-Jón bráðdauður og töldu menn sig sjá ummerki þess að hann hefði verið kyrktur. Fæstir drógu í efa að þar hefði Gunnhildur verið að verki, enda gekk hún brátt ljósum logum um Dýrafjörð.

Fjöldi manna varð með einum eða öðrum hætti var við Gunnhildi næstu 150 árin og margvíslegar sögur mynduðust um hrekki hennar og bellibrögð. Einkum þótti hún fylgja niðjum systkina sinna en þeim fjölgaði ört er á 19. öldina leið og dreifðust þá um Dýrafjörð og nálæga firði. Reyndar gerði Gunnhildur lengi vart við sig hvar sem um hana var rætt og því forðuðust margir að nefna nafn hennar, einkum þó ef orðið var kvöldsætt.

Er afturganga Gunnhildar var hvað mögnuðust á fyrri hluta 19. Aldar brugðu Dýrfirðingar á það ráð að leita til víðfrægra kunnáttumanna í Arnarfirði, Magnúsar Ólafssonar á Baulhúsum og Jóhannesar bróður hans á Kirkjubóli í Mosdal (sjá hér Kirkjuból í Mosdal) í þeirri von að slíkir galdrameistarar sæu ráð til að fyrirkoma Gunnhildi. Jóhannes kom að Hrauni og skoðaði leiði Gunnhildar vel og vandlega en tilkynnti síðan að enginn kostur væri á að kyrrsetja afturgönguna þar eð hún dveldist aldrei í gröfinni nema á hvítasunnudag milli pistils og guðspjalls. Mun Gunnhildur hafa verið eina afturgangan sem Jóhannes varð ráðþrota gagnvart.

Undir lok nítjándu aldar og á fyrstu árum hinnar tuttugustu varð enn býsna oft vart við  Gunnhildi en ekki verður sagt að líf manna og limir hafi þá enn verið í bráðri hættu þar sem hún lét til sín taka. Svipur Gunnhildar gerði þá ekki síst vart við sig á undan komu einhvers frænda hennar eða frænku. Oftast birtist Gunnhildur klædd í peysuföt en stundum var hún á rauðu millipilsi með glettnissvip og hæðnisbros á vör. Stöku sinnum dró hún líka á eftir sér nautshúðina sem forðum var breidd yfir sjórekið lík hennar í Sveinseyrarnausti og væri hún reitt til reiði átti hún til að drepa vænsta sauðinn eða vakrasta hestinn fyrir þeim sem á hlut hennar hafði gert.

All nítjándu öldina hvíldi bannhelgi hvílt á nafni Gunnhildar og enginn Vestfirðingur dirfðist að gefa nýfæddu stúlkubarni þetta fagra nafn hinnar fornu kóngamóður. Rúm öld leið þangað til bannhelgin var rofin og stúlka fékk aftur nafnið Gunnhildur.

Nú liggur Gunnhildur bóndadóttir á Sveinseyri nokkuð kyrr í hinum forna kirkjugarði í Hrauni og friður ríkir yfir fornum naustum á Sveinseyri þar sem reis upp af köldum líkbörum fyrir meira en tvö hundruð árum undir öxi bróður síns. Ekkert óhreint er hér lengur á ferð. Lítilfjörlegur hrollur kynni þó að fara um suma í stofunni á eyðibýlinu Sveinseyri þar var rúm Gunnhildar forðum.

Texti og heimildir Kjartan Ólafsson.

Leiði Gunnhildar Sumarliðadóttur í Hraunskirkjugarði
Leiði Gunnhildar Sumarliðadóttur í Hraunskirkjugarði
Göngu-og-hjólakort--Dýrafjörður
Kort © 2024 Maps of Iceland

Deila: