Kort af gönguleið 4. Haukadalur-hringur
Kort © 2024 Maps of Iceland

Gönguleið

4. Haukadalur – hringur

3 - 4 tímar - Hækkun: 80m.


Í Haukadal drýpur sagan af hverju strái. Margt er hægt að skoða og þess virði að verja þar nokkrum klukkutímum við að ráfa um dalbotninn og hugsa um raunir forfeðranna og erlendra sjómanna sem vöndu komur sínar í Dýrafjörðinn.

Dalurinn er aðalsögusvið Gísla sögu og er talið að bær hans hafi staðið á Gíslahól en þar má finna tóftir sem taldar eru vera frá söguöld. Dalurinn er hallalítill og í botni hans gnæfir Kaldbakur yfir umhverfi sitt og Kolturshorn er á hægri hönd. Hægt er að ganga á hornið ef farið er inn Koltursdalinn og upp á hrygginn á milli Kaldbaks og Kolturshorns. Leiðin er vandrötuð og ekki fyrir óvana.

Fyrir neðan Kolturshornið eru tóftir. Þar heitir Sel og er talið að bær Auðbjargar hinna göldróttu, Annmarkastaðir, hafi staðið en hennar er getið í Gísla sögu. Þegar búið er að skoða tóftirnar er skemmtilegt að fara yfir Þverána og ganga dalinn austanverðan til baka. Í mynni dalsins má sjá Seftjörn þá er Haukdælir til forna háðu á ísknattleiki eins og greint er frá í Gísla sögu. Seinna var tjörnin notuð á veturna til að höggva ís er notaður var í fyrsta íshúsi í Vestur – Ísafjarðarsýslu um aldamótin 1900.

Haukadalsbót var einn helsti hvíldarstaður áhafna franskra fiskiskúta er þær stunduðu veiðar við vesturströnd Íslands. Fransmannagrafreitur er í innaverðu mynni dalsins þar sem nokkrir sjómenn af þessum skipum hlutu hinstu hvílu.

Haukadalur
Göngu-og-hjólakort--Dýrafjörður
Kort © 2024 Maps of Iceland

Deila: