Kort af gönguleið, Haukadalur-Lokinhamradalur-Detail
Kort © 2024 Maps of Iceland

Gönguleið

5. Haukadalur – Lokinhamradalur

5 - 6 tímar - hækkun: 600m.

Byrjað er að ganga fram Haukadalinn vestanverðan og efstu kindagötunum fylgt. Ekki er gengið alla leið fram að bæjartóftum hennar Auðbjargar, heldur er sveigt til vesturs upp í grösugan Lambadalinn, meðfram Þverá sem víða fellur í þröngu gljúfri, og gengið fram dalbotninn. Það er frekar bratt upp á Lokinhamraheiðina en heiðin sjálf er örstutt og jafnvel stysta heiði á landinu, ekki nema fimm til sex skref! Nú blasir við Lokinhamradalurinn og er gengið niður dalinn austanverðan meðfram fjallinu Skeggja sem á þessari leið er oft nefndur Skorarfjall eftir mjög djúpum skorum sem skera sundur tröllaukin hamrabelti fjallsins, enda er þar þurrara undir fæti.

Lokinhamradalurinn er hömrum girtur nema til vesturs og var þar til seint á síðustu öld meðal afskekktustu byggðra bóla landsins. Fólkið í dalnum byggði afkomu sína á sjónum og veiddi aðallega þorsk og hákarl frá Grísavík, þar sem enn sést til rústa verbúða. Draugarnir Lokinhamra-Skotta, Stutta-Gunna, Arnarnúps-Móri og Gunnhildur á Sveinseyri voru þarna á sveimi og hinn síðastnefndi líklega enn þá. Náttskessan Kerling varð að steini í Grísavík í dagrenningu. Guðmundur G. Hagalín, rithöfundur, fæddist á Lokinhömrum árið 1898. Síðustu bæirnir, Hrafnabjörg og Aðalból, í dalsmynninu fóru í eyði rétt fyrir aldamótin 2000.

Hér má sjá stutt myndbrot: RAX augnablik – Síðustu ábúendur í Lokinhamradal

Lokinhamradalur
Göngu-og-hjólakort--Dýrafjörður
Kort © 2024 Maps of Iceland

Deila: