Kort af gönguleið, Tjaldanesdalur - Kirkjubólsdalur
Kort © 2024 Maps of Iceland

Gönguleið

8. Tjaldanesdalur – Kirkjubólsdalur

5 - 6 tímar - hækkun 540m.

Ekið er framhjá bænum Auðkúlu í Arnafirði og út fyrir bæinn Tjaldanes og upp afleggjara fyrir utan ána. Ekki borgar sig að fara lengra en upp á kambinn. Dalurinn sjálfur er fyrir margt sérstakur. Hann er miðja svokallaðrar Tjaldaneseldstöðvar sem er kulnuð megineldstöð með ríólít (líparít)skriðum og keiluganga úr gabbrói sem liggja inn að miðju eldstöðvarinnar. Tjaldaneseldstöðin er elsta megineldstöð Íslands. Á sólríkum degi taka skriðurnar á sig ýmsa liti og sérstaklega eftir rigningu.

Gengið er fram dalinn að vestanverðu og fylgt kindagötum. Einnig eru litlar vörður upp á hæðum til að létta leiðarvalið. Dalurinn er mikið berjaland sem getur tafið för síðsumars þegar ferðalangar setjast niður við hverja þúfu og fá sér í svanginn. Fremst er dalurinn mjög gróðursnauður og í Tröllakika, þar sem sólin aldrei skín, er gengur vestur úr honum, er varla stingandi strá. Ef tíminn sé nægur er gaman að taka smá krók þangað inneftir. Göngudalsskarð (65°48.228N 023°34.382W) er næsti áfangastaður og er um brattar skriður að fara og er víða farið að marka fyrir slóða og um að gera að nota hann. Gott er að taka nestishvíld í skarðinu í um 580m hæð með fagurt útsýni til beggja átta.

Þaðan er haldið niður í Göngudalinn og nú stendur val um að halda alveg niður í botn Kirkjubólsdal og fylgja vegslóðanum að Múla. Hinn möguleikinn er að fylgja svokölluðum Tröllagötum undir Breiðhorni og Hádegishorni alveg heim að Hofsrétt sem er forn hlaðin rétt. Þaðan er að lokum gengið að veginum við bæinn Múla. Þetta er vissulega skemmtilegri leið en meira krefjandi og tekur aðeins lengri tíma.

Göngu-og-hjólakort--Dýrafjörður
Kort © 2024 Maps of Iceland

Deila: