Það er að verða sífellt vinsælla að hjóla svokallaðan Svalvogahring. Leiðin er stórkostleg og upplifa ferðalangar allt sem sagt er frá í leið þrettán auk þess að hjóla upp Fossdalinn, yfir Álftamýrarheiði og niður Kirkjubólsdalinn og enda við flugstöðina (á flugvellinum) þaðan sem lagt var af stað. Þetta er sannarlega skemmtileg ferð og óhætt að mæla með henni fyrir alla sem eru með fæturna í sæmilegu lagi. Fyrir þá allra hörðustu, er gaman að fara af hjólinu á heiðinni (Álftamýrarheiði) og ganga þaðan á topp Kaldbaks. Eftir að hafa notið útsýnisins af „þaki Vestfjarða“ er farin sama leið niður aftur og hjólað niður Kirkjubólsdalinn að upphafsstað.