Um hringleið er að ræða umhverfis Sandafell, bæjarfjall Þingeyrar. Leiðin hentar öllum og því er um að ræða upplagða fjallahjólaferð fyrir alla fjölskylduna. Leiðin er á vegi eða stíg alla leiðin og ekki er um mikla hækkun að ræða.
Leiðin byrjar og endar við kaffihúsið Simbahöllina og ekki skiptir máli hvorn hringinn er farið. Um miðbik leiðarinnar er að finna skógrækt Þingeyringa og er það kjörinn staður til þess að taka nestisstopp og bregða á leik í skóginum eða tína ber og sveppi ef það er sá tími ársins.
Fyrir þá sem vilja gera meira úr leiðinni og bæta á sig töluverðri hækkun, þá er upplagt að taka krók á sig og bæta toppi Sandafells við. Útsýnið af Sandafelli er stórfenglegt og enginn ætti að láta það úr hendi sleppa að koma þangað upp. Slóði upp á Sandafell liggur af gamla þjóðveginum og því er þægilegt að hjóla upp á fjallið, en hækkunin er töluverð og brött á köflum og því er einungis mælt með toppi Sandafells fyrir vant fjallahjólafólk.