55 km Hækkun um 1000 m.
Ferðin hefst á Þingeyri, fyrst um gamla þjóðveginn yfir Hrafnseyrarheiði. Með tilkomu ganganna á milli Dýrafjarðar og Arnafjarðar hefur bílaumferð minnkað mikið og því er upplagt að hjóla þennan um 20 km. vegarkafla frá Þingeyri til Hrafnseyrar í Arnarfirði.
Kjörið er að hvíla lúin bein á Eyri við Arnarfjörð, sem nú heitir Hrafnseyri, einu helsta höfðingjasetri á Vestfjörðum fyrr á öldum. Hér þótti Grélöðu, jarlsdótturinni írsku, vera „hunangsilmur úr grasi“ en hún var kona Ánar rauðfelds og fyrsta húsfreyjan á Eyri. Víðfrægastur allra heimamanna á Eyri, fyrir daga Jóns Sigurðssonar, er án efa Hrafn Sveinbjarnarson sem bjó hér á síðari hluta tólftu aldar og í byrjun hinnar þrettándu. Hann var þá mestur höfðingi á Vestfjörðum og lækningar hans rómaðar víða. Hrafn var goðorðsmaður og munu flestir bændur á svæðinu frá Stigahlíð að Vatnsfirði hjá Barðaströnd hafa verið í þingi með honum. Bæ sinn hér á Eyri húsaði hann stórmannlega og reisti um hann virki. Hrafn er fyrsti íslenski bartskerinn, sem um er kunnugt, en læknislist er hann talinn hafa numið í Salerno á Ítalíu, eða hjá mönnum sem þar voru menntaðir.
Til marks um veldi Hrafns og höfðingsskap má nefna að hann hafði ferjur til fólksflutninga, bæði á Arnarfirði og Breiðafirðien slík þjónusta var ekki tekin upp að nýju á þessum slóðum fyrr en sjö öldum síðar. Hrafn var vinur Guðmundar Arasonar biskups og fylgdi honum utan er Guðmundur fór til vígslu árið 1202. Í annarri utanlandsför vitjaði Hrafn grafar Tómasar Becket, erkibiskups í Kantaraborg á Englandi, og fór í pílagrímsferðir til Frakklands, Ítalíu og Spánar.
Hrafn deildi við Þorvalda Snorrasonar í Vatnsfirði við Djúp en í þriðju aðför sinni náði Þorvaldur að taka drepa Hrafn. Það var á langaföstu árið 1213 og kom Þorvaldur í hríðarveðri yfir Glámu með fjölmennan flokk vígamanna. Er þeir komu að virkinu settu þeir mann þann er Bárður hét á skjöld „og lyftu skildinum upp á spjótsoddum svo að hann mátti klífa af skildinum í virkið“. Náði Bárður að draga lokur frá hurðum og var hinn voldugi héraðshöfðingi á Eyri leiddur út og höggvinn undir virkisveggnum. Vaskir afkomendur Hrafns börðust við Kolbein unga og menn hans á Húnaflóa 1244 í frægustu sjóorrustu Íslandssögunnar. Þekktasti sonur Hrafnseyrar er þó Jón Sigurðsson (17. júní 1811 – 7. desember 1879), oft nefndur Jón forseti, helsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Fæðingardagur hans er þjóðhátíðardagur Íslendinga en Lýðveldið Ísland var stofnað þann 17. júní árið 1944.
Frá Hrafnseyri er beygt til hægri út af veginn og inn á vegaslóða sem liggur út Arnafjörð. Þaðan er um 16 km. leið í Fossdal. Þar er stefnan tekin í norður og hjólað inn Fossdal og upp í Kvennaskarð. Úr Kvennaskarði er upplagt fyrir þá sem hafa nægan tíma og þrek að ganga á Kaldbak, hæsta fjall Vestfjarða. Úr Kvennaskarði er hjólað út Kirkjubólsdal, þar til komið er á veg austan Hofs. Þaðan er veginum fylgt í áttina að flugvellinum í Dýrafirði og þaðan áfram sem leið liggur inn Dýrafjörð til Þingeyrar.
Rétt er að taka fram að slóðinn sem farinn er frá Hranfseyri, um Fossdal og Kirkjubólsdal er grófur á köflum. Þá er þessi leið nokkuð krefjandi, þar sem hún felur í sér strembnar brekkur bæði upp á Hrafnseyraraheiði og í Kvennaskarð, en að sama skapi langar leiðir undan halla niður af Hrafnseyrarheiði og út Kirkjubólsdal.