Meðaldalur – náma

Hjólað er eftur grófum vegaslóða inn dalinn þar sem m.a. má finna golfvöll Þingeyringa, leifar gamallar vatnsvirkjunar frá upphafi tæknialdar og í botni dalsins var námugröftur í upphafi 20. aldar.

Hjólað er eftur grófum vegaslóða inn dalinn þar sem m.a. má finna golfvöll Þingeyringa, leifar gamallar vatnsvirkjunar frá upphafi tæknialdar og í botni dalsins var námugröftur í upphafi 20. aldar. Var þar leitað eftir silfurbergi sem þá var mikils metið og notað í smásjár, sjóngler og fleira.

Námamenn voru Einar Einarsson (1880-1939) bátasmiður úr Reykjavík, Jón Bjarnason (1894-1912) og Jónas Þorsteinsson (1880-1918) steinsmiður úr Reykjavík, en hann var kunnáttumaður um sprengingar og hefur líklega verið verkstjórinn. Náman mun vera 10-15 metrar að lengd, en námuopið er um 2,5 metrar á hæð. Í ljós kom þó að í fjallinu er ekki að finna silfurberg heldur skylda tegund, aragónít. Mikið efni hefur borist inn í námuna í áranna rás svo nú er hún aðeins 4-6 metrar að dýpt.

Meðaldalur er tæplega fjórir kílómetrar á lengd en aðeins 200-300 metrar á breidd víðast hvar. Beggja vegna dalsins rísa há klettafjöll. Að utan Hæðin, sem nefnd fullu nafni mun heita Meðaldalshæð, en að innan Hólafjall, stundum nefnt Þríhnúkafjall en Þríhnúkar gnæfa þar við efstu brún. Fjallið Meðaldalshæð er 513 metra hátt en Hólafjall 653 metrar. Upp úr botni Meðaldals er fær nær klettalaus en brött gönguleið yfir í Fossdal í Arnarfirði og er þá farið rétt innan við hornið á Kaldbak, hæsta fjalli Vestfjarða. Skarðið sem farið er um liggur í um það bil 600 metra hæð. Meðaldalsá rennur um endilangan dalinn og er dálítið graslendi beggja vegna árinnar.

Í Meðaldal var um aldir þingstaður þeirra sem bjuggu við vestanverðan Dýrafjörð til 1896, enda álíka langt þangað frá ysta og innsta bæ í hreppnum eða um 14 kílómetrar frá Svalvogum og um 17 kílómetrar frá Dröngum. Gálgi heita klettar niður við sjó innan við túnið í Meðaldal hjá lækjarsytru er kemur ofan úr Þursaskál. Þar má ætla að þjófar, sem dæmdir voru á Meðaldalsþingi, hafi verið hengdir, enda sýnast aðstæður hentugar til slíkra athafna. Í Meðaldal voru einnig Guðmundur Pantaleonsson frá Granda og Ingveldur Jónsdóttir dæmd til dauða, árið 1749, fyrir blóðskömm en þau eignuðust barn en Ingveldur átti fyrir barn með föður Guðmundar. Ingveldur dó í varðhaldi en kvennaljóminn Guðmundur var fjórum sinnum til dauða, afplánaði í Stokkhúsi; þrælabúðum í Kaupmannahöfn um árabil, vann ástir marskálkskfrúar við dönsku hirðina og endaði síðan ævina í útlegð í Finnmörk.

Deila: