Fjallaskíði Klukkulandshorn

Í norðanverðum Dýrafirði, til móts við Mýrafell ber við himin Klukkulandshorn. Þetta er miðlungs erfið brekka en einstaklega skemmtileg. Hallinn er að jafnaði um 30 gráður, en slagar upp í 45 gráður efst. Efsti punkturinn á hyrnunni sjálfri er í um 570m hæð

1 km            570 m hækkun              Fyrir þá sem eru þokkalega vanir fjallaferðum að vetri til.

GPS:             Upphaf:                           65.9381885388868, -23.638204313118642

Í norðanverðum Dýrafirði, til móts við Mýrafell ber við himin syðstu klettabrún Klukkulandsfjallsins og heitir þar Klukkulandshorn. Fjallsbrúnin er í nær 600 metra hæð yfir sjávarmáli og tengist hamraveggjunum í Minna-Garðshvilft.

Mjög gott er að komast að Klukkulandshorni og einungis spölkorn að fara frá veginum sem liggur að Núpi í Dýrafirði. Miðlungs erfið brekka en einstaklega skemmtileg. Hallinn er að jafnaði um 30 gráður, en slagar upp í 45 gráður efst. Efsti punkturinn á hyrnunni sjálfri er í um 570m hæð.

Gangan upp á fjallsbrúnina er tiltölulega auðveld. Þegar upp er komið blasir við fagurt útsýni út fjörðinn og yfir á fjöllin sunnan Dýrafjarðar, þar með talinn Kaldbak, 998 metrar og hæsta fjall Vestfjarða.

Skíðaleiðin upp og niður af fjallinu er tilvalin fyrir þá sem eru þokkalega vanir fjallaskíðum. Tilvalin brekka fyrir vorskíði, frá miðjum apríl þar til um miðjan maí.

Aðgengi auðvelt og yfirleitt er hægt að skíða beint frá veginum. Upphafs og endastaður getur annað hvort verið frá þjóðveginum við mætingarskiltið rétt eftir afleggjarann að Felli, eða ef snjólétt er þá má beygja af veginum áður en komið er að Felli, í átt að litlum skógi sem er þar í hlíðinni. Þá má skíða beint í gegnum skóginn.

Vidar Kristinsson at Klukkulandshorn. Dýrafjörður, Westfjords, Iceland.

Deila: