Kort af gönguleið, Keldudalur-Gjálpardalur
Kort © 2024 Maps of Iceland

Gönguleið

1. Keldudalur-Gjálpardalur

3 - 3,5 tímar - Hækkun 250m.

Í Keldudal er fögur fjallasýn. Hæstu brúnir fjallanna eru flestar í yfir 500 metra hæð og allra hæst er Þverfellið fyrir botni dalsins en brún þess er í 904 metra hæð. Helstu fjöll, fjallahvilftir og þverdalir í Keldudal eru þessi talið að utanverðu frá sjó og síðan áfram fyrir dalbotninn og til sjávar: Helgafell, Strengbergshvilft, Strengbergshorn, sem líka var nefnt Nónfjall, Gjálpardalur, Hundshorn, sem teygist nokkuð frá meginfjallgarðinum í átt til sjávar, Skálarárhvilft, Saurhorn, Álftaskál, Álftaskálarfjall en þar ber hæst Geldingadalshorn, Geldingadalur – og er þá komið í dalbotn.

Fyrir botni dalsins er Þverfell en norðan og austan við það er Lambaskál. Upp úr henni má ganga yfir í Lambadal sem er þverdalur frá Haukadal. Næst kemur Seljafjall, þá Arnarnúpshvilft, síðan Skóghlíðarfjall, þá Skarðanúpur og loks Arnarnúpur sem ýmsir telja tignarlegasta fjallið í öllum Dýrafirði. Skemmtileg gönguleið er á Arnarnúp úr Eyrardal, sjá gönguleið nr. 3, Sveinseyri-Arnarnúpur.

Myndband eftir Hauk Sigurðsson

Keldudalur komst seint í vegasamband, hvergi er hestfært upp úr dalnum og um aldir var aðgengi því einkum frá sjó. Keldudalur byggðist strax á landnámsöld og hafði byggð því staðið í dalnum í rösklega 1000 ár þegar hann fór í eyði árið 1966.

Lagt er upp frá Hraunskirkju sem byggð var árið 1885. Kirkjan var aflögð sem sóknarkirkja árið 1971 en í henni eru merkir gripir, m.a. tvær altaristöflur og prédikunarstóllinn sem talinn er verk sr. Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði (1692-1742). Skammt frá Hraunskirkju er uppsprettulindin Gvendarbrunnur en þangað var gjarnan sótt vatn þegar skírt var í kirkjunni. Gengið er frá Hraunskirkju fram í hömrum girtan Gjálpardal. Á Vestfjörðum eru berggangar oft kallaðir strengir en í Strengbergshorninu sem er að norðanverðu í dalnum eru tignarlegir strengir sem vert er að skoða.

Innst í mynni Keldudals og innantil við dalsmynnið eru Biskupsbakkar. Þar er Biskupslending undir bökkunum og segir sagan að þar hafi einn eða fleiri Skálholtsbiskupar tekið land er þeir komu að vísitera í Hrauni. Stapavogur er önnur lending undir Biskupsbökkum. Við þann vog er lítill klettur í sjó og heitir Stapi. Í munnmælum segir að Stapi þessi og drangurinn Eyrarkerling í landi Sveinseyrar hafi bæði verið mennskar manneskjur og reyndar systkini. Þau heituðust hvort við annað og mæltu svo um bæði tvö að hitt skyldi verða að steini. Reyndar lét systirin þau áhrínsorð fylgja að allir fuglar skyldu þaðan í frá drita á hinn fordæmda bróður og sjást enn merki þess á Stapa undir Biskupsbökkum.

Heimildir og texti að hluta: Kjartan Ólafssson.

Keldudalur
Göngu-og-hjólakort--Dýrafjörður
Kort © 2024 Maps of Iceland

Deila: