Nokkuð löng ganga eftir vegarslóðanum sem liggur fyrir skagann á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Vegslóðanum er fylgt frá Keldudal og fyrst farið um klettaþræðinginn í Hrafnholunum. Þar má m.a. sjá leifar trjáa sem eru meira en 10 milljón ára gamlar. Áfram er gengið framhjá Höfn og um Svalvoga. Fjöllin eru hrikaleg og ekki fjaran er síðri, sérstaklega margbrotin og falleg. Frá Svalvogum er vegslóðanum fylgt áfram um Sléttanes og inn til hömrum girts Lokinhamradals. Á leiðinni er gengið framhjá hverjum hamrasalnum á fætur öðrum og berggangar á leiðinni eru hreint ótrúlegir.
Skeggi, fjallið innan til við Lokinhamradal og áfram inn á Bjargahlíðina er einn stórfenglegasti fjallarisi Íslands. Áfram er vegslóðanum fylgt inn undir Skútabjörgin og inn að Stapa og alltaf verður ný upplifun. Frá Stapanum er vegslóðanum fylgt inn að Stapadal en þangað er gott að komast á bíl.