Svalvogavegurinn

Svalvogavegurinn

Svalvogavegur er 49 kílómetra langur vegkafli sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Torfær, en mikilfengleg leið.

Svalvogavegur er um 50 kílómetra langur vegkafli sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Leiðin er einhver stórfenglegasta hjólaleið landsins og torfær á köflum. Veginum er fylgt fyrir Sveinseyri og Keldudal um klettaþræðinginn í Hrafnholunum sem Elís Kjaran markaði með jarðýtu sinni á blágrýtið í fjallshlíðinni ofan við Hafnarófæru þar sem talið hafði verið ótækt að leggja akfæran veg.

Það er ekki á hverjum degi sem hjólað er í miðju fuglabjargi en fyrir ofan og neðan slóðann verpir fýll. Einnig má á þessum slóðum sjá leifar trjáa sem eru meira en 10 milljón ára gamlar.  Áfram er haldið framhjá Höfn og um Svalvoga. Stöldrum við á Brítarholtinu, fyrir ofan Svalvogatúnið þar sem kona forn er Brít hét er grafin. Ekki má hrófla við neinu, hvorki steini né þúfu, en ekki þótti við hæfi að iðka barnaleiki á holtinu til að styggja hana ekki en efst í túnkrika upp undir Brítarholti er uppsprettulindin Vínhola þar sem gott er að svala þorstanum.

Frá Svalvogum er vegslóðanum fylgt áfram um Sléttanes og inn til Lokinhamradals. Á leiðinni opnar hver hamrasalurinn við af öðrum faðminn og berggangar á leiðinni eru ægifagrir. Skeggi, fjallið innan til við Lokinhamradal og áfram inn á Bjargarhlíðina er einn stórfenglegasti fjallarisi Íslands. Áfram er slóðanum fylgt inn undir Skútabjörgin og inn að Stapa. Þaðan er farið inn að Stapadal en þangað er auðvelt að komast akandi. Þá er hjólað upp Fossdalinn, yfir Kvennaskarð og niður Kirkjubólsdalinn og endað við flugvöllinn þar sem lagt var af stað. Þau allra hörðustu geta stigið af hjólinu undir Álftamýrarheiði og gengið þaðan á topp Kaldbaks. Eftir að hafa notið útsýnisins af „þaki Vestfjarða“ er hjólað niður Kirkjubólsdalinn.

Hér að neða má sjá ýmsa umfjöllun um þessa skemmtilegu leið.

Um þorpið

Hættulegasti vegur á Íslandi?

Hættuleg náttúrufegurð

Leiðin til Þingeyrar

Deila: