En nú falla vötn öll til Dýrafjarðar, og mun ég þangað skíða, enda er ég þess fús…
Skíðaleiðin fylgir merktri gönguleið sem hefst rétt ofan við Seftjörn. Seftjörnin spilar stórt hlutverk í Gíslasögu Súrssonar en Haukadalur í Dýrafirði kunnari flestum öðrum stöðum á Vestfjörðum því hér er höfuðsögusviðið. Leiðin liggur einnig fram hjá Gíslahól, en þar er talið að bær Gísla hafi staðið.
Gíslasaga, sem talin er hafa verið rituð um 1250, greinir frá harmrænum örlögum bræðranna tveggja og mága þeirra, Þorgríms goða og Vésteins, bróður Auðar. Á Valseyrarþingi, handan Dýrafjarðar, hugðust þeir sverjast í fóstbræðralag, en á síðustu stundu hnykkti Þorgrímur að sér hendinni og neitaði að gerast fóstbróðir Vésteins – Svo munum vér þá fleiri gera, segir Gísli, og hnykkir og sinni hendi, – og skal ég eigi binda mér vanda við þann mann er eigi vill við Véstein mág minn. Þar með var vináttan úti og þræðir tóku að spinnast sem að lokum leiddu til þess að allir þessir ungu menn féllu fyrir vopnum sér nátengdra manna.
Í Gísla sögu er hlutur kvenna stór og þá sérstaklega þáttur Auðar Vésteinsdóttur, konu Gísla, sem af skörungsskap og trúfestu lagði bónda sínum lið í útlegð hans. Af tali kvenna fékk Þorkell Súrsson grun um að hugur Ásgerðar konu sinnar væri fremur bundinn Vésteini en sér. Engar eru sóttir á mér en sóttum verra er þó, svaraði Þorkell í þessari hugraun er hann var spurður hví honum væri svo þungt. Er Gísla var sagt frá tali kvennanna um hug Ásgerðar til Vésteins og hann spurður á hvern veg úr mætti bæta, kvaðst hann engin ráð sjá til að eyða töluðum orðum en tíðindunum tók hann þó með jafnaðargeði og gat þess eins að mæla verður einhver skapanna málum. Það voru örlögin sem lögðu konunum hin afdrifaríku orð á tungu.
Leiðin liggur fram dalinn að fornum rústum sem bera nafnið Koltur en leidd hafa verið rök að því að þarna hafi Þorkell annmarki og Auðbjörg kona hans búið á Annmarkastöðum. Þorsteinn sonur þeirra og Bergur á Skammfótarmýri áttu í illdeilum og þurfti Auðbjörg að gera að sárum Þorsteins og segir svo í Gísla sögu:
Kerling fær ekki sofnað um nóttina, svo var henni bimbult. Veður var kalt úti og logn og heiðríkt. Hún gengur nokkrum sinnum andsælis um húsin og viðrar í allar áttir og setur upp nasirnar. En við þessa hennar meðferð þá tók veðrið að skipast og gerir á fjúk mikið og eftir það þey og brestur flóð í hlíðinni og hleypur snæskriða á bæ Bergs og fá þar tólf menn bana og sér enn merki jarðfallsins í dag.
Vinur Bergs, Börkur frétti af þessu og fer hann upp á Annmarkastaði og lætur taka Auðbjörgu og fer með hana út á Saltnes og ber hana grjóti í hel. Sömu örlög hlaut bróðir hennar seiðskrattinn Þorgrímur nef. En það voru ekki aðeins landnámsaldarmenn sem fengust við galdra því í vestfirskum sögnum segir margt frá reimleikum í Haukadal á fyrri hluta 19. aldar sem skipasmiðirnir Jón og Ólafur glímdu við. Óánægður viðskiptavinur magnaði upp sendingu á hendur þeim, uppvakninginn Hala sem gekk þar ljósum logum um árabil þar til hann var kveðinn niður af öðrum kuklara úr Arnarfirði.
Á 19. öld sigldi mikill fjöldi franskra skipa árlega á Íslandsmið og svo hafði reyndar verið allt frá því á 17. öld. Árið 1855 reyndu að fá heimild til að stofna franska nýlendu á Þingeyri og hefja þar fiskverkun en Haukadalsbændur áttu svo mikil samskipti við Fransmenn að til varð hugtakið haukadalsfranska. Ekki voru samskiptin ávallt góð en fræg er saga af frönskum háseta sem dó á skútu sem lá við Dýrafjörð. Var hann dysjaðurí firðinum og var líkið vafið í striga og heilmikinn snærisstranga. Eitt sinn vantaði Haukdæling snæri og gróf hann líkið upp. Fór þá að bera á reimleikum og veittist draugurinn að mönnum og fé. Var þá leitað til hins fjölkunnuga Jóhannesar á Kirkjubóli . Hann gaf út tilskipun um að menn og fénaður skyldu halda sig inni tiltekna nótt eða hafa verra af. Var því að hlýtt af öllum nema einum sem missti fyrir vikið allar kindur sínar í sjóinn. Jóhannes kom draugnum fyrir með aðstoð sendimanns síns og varð hans ekki vart eftir það.
Skíða má hringinn og hvort heldur austan eða vestan við Þverána sem rennur um dalinn. Dalurinn er hallalítill og í botni hans drottnar Kaldbakur yfir fjallasalnu og Kolturshorn er vestanvert í dalnum. Ef hringleiðin er valin þarf að fara yfir ána í botni dalsins, en annars má ganga sömu leið til baka og heimsækja Fransmannagrafreitinn þar sem franskir sjómenn sem áttu ekki afturkvæmt til heimahaganna voru lagðir til hinstu hvílu.